Að bænum Birkihlíð búum við hjónin Þröstur Heiðar Erlingsson og Ragnheiður Lára Brynjólfsdóttir ásamt börnunum okkar sex og tengdasyni. Árið 1999 keyptum við jörðina og fluttum í sveitina. Bærinn er á milli Sauðárkróks og Varmahlíðar, nánar tiltekið 7 km frá Sauðárkróki og 17 km frá Varmahlíð. Við erum með í kringum 85 mjólkandi kýr, uppeldi á kvígum og nautum í fjósinu okkar sem við byggðum árið 2007 og er búið tveimur Lely róbótum. Einnig erum við með rétt tæplega 200 kindur en þær eru ekki settar á kál. Nú, haustið 2021, fengum við langþráð leyfi til að slátra heima, örsláturhúsleyfi. Stefnan okkar er að slátra öllum okkar lömbum og ám hér heima frá og með næsta hausti.
Haustið 2017 tókum við í gagnið fullútbúna kjötvinnslu sem er staðsett í gamla fjósinu okkar sem við erum búin að taka í gegn. Við tökum allt lamba- og ærkjöt heim og eins tökum við nautin okkar heim og vinnum í kjötvinnslunni okkar og stefnan er að ná að láta einnig allt naut og nautgripakjöt fara þar í gegn á næstu árum. Allt kjöt hjá okkur er látið fullmeirna áður en það er selt. Mikil áhersla er lögð á persónulega þjónustu við okkar viðskiptavini og förum við með kjöt u.þ.b. einu sinni í mánuði til Reykjavíkur og eins til Akureyrar til fastakúnna sem versla frá Birkihlíð Kjötvinnsla. Einnig erum við með hluta af okkar vöruúrvali í Bíl smáframleiðenda sem gerður er út frá BioPol á Skagaströnd og keyrir um Norðurland vestra.
Við höfum verið tiltölulega dugleg að fara á markaði með okkar afurðir. Höfum verið t.d. á Bændamarkaði á Hofsósi, Local Food sýningunni í Hofi á Akureyri, Hrafnagili í Eyjafirði og skelltum okkur á Landbúnaðarsýninguna í Laugardalshöll árið 2018. Ásamt því að vera félagsmenn í Beint frá býli erum við líka meðlimir í Matarkistan Skagafjörður og í Samtökum smáframleiðenda matvæla, SSFM, en þau samtök vinna að hagsmunamálum smáframleiðenda matvæla á öllum sviðum um allt land.